MÍN VÖLVUSPÁ

1993-01-05Ég spái því að Völvan borði kjúklingasúpu í næstu viku.

Ég spái því einnig að hún verði ófrísk eftir örstutt skyndikynni við þekktan sprellikall og að barnið muni fæðast svona níu mánuðum eftir að kallin frumflutti spriklandi sæði sitt.

Einnig sé ég fyrir mér að sprellikallinn og Völvan fari í sambúð en sprellikallinn verði afar erfiður í sambúðinni og fari mikið út á djammið með félögunum og því muni öll spádómsorka Völvunnar fara í að spá hvenær og hvort sprellikallin komi heim af djamminu.

Ég spái því einnig að Völvan muni ekki svo mikið spá í heimsmálin en verði uppteknari af nærtækari heimilisvanda sínum sem verður sá m.a. að sprellikarlinn fer á geðdeild eftir nákvæmlega eitt ár.

Ég spái því að lokum að Völvan muni spá því að sprellikarlinn nái heilsu eftir meðferðina en hætti að spá í Vikuna en taki bara einn dag í senn.


mbl.is Völvan spáir stjórnarslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AÐ BREYTAST Í FIÐRILDI

Chad-Thomas---ButterflyÞótt þessi saga mannsins sé harmleikur er eitthvað við hana sem snertir mig. Ég alltaf verið heillaður af "nýju lífi" eins og þegar litla ljóta lirfan breytist í fiðrildi. Myndum við ekki öll vilja losa okkur við lestina, fara hreinlega úr þeim og skilja hýði ógæfunnar eftir á gólfinu eins og hvert annað rusl ef við gætum.

Það held ég nú bara.


mbl.is Maður handtekinn tveim árum eftir sjálfsmorð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HALLÆRISLEGT

Ósköp hef ég lítinn húmor fyrir svona unglingahúmor, en það er mitt vandamál. Best að fá sér kaffi og kleinu og vita hvort ég yngist ekki upp.

Núna í þessu svarta morgunsári fyrir kaffi finnst mér þetta tiltæki Ómars gjörsamlega ófyndið og hallærislegt.   

Ekki fyndið.


mbl.is Fegursti femínistinn valinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HURÐARSKELLIR OG HAUSPOKAR

kona úr vesturbænumBloggarar sem skjóta á annað fólk með skrifum sínum, en eru jafnframt með lokað fyrir skriflega löðrunga til baka eru svolítið huglausir að mínu mati. Ef fólk ætlar að vera í fremstu víglínu orðaskaks á blogginu er æskilegt að galopið sé fyrir athugasemdir, þannig að skriflegir kinnhestar, mótmæli, háð og hrós fái að hrynja inn. 

Athugasemdir sem fara ekki í gegnum síu og birtast jafnóðum eru einmitt til þess fallnar að fækka leyniskyttum í fílabeinsturnum.

Sá sem kemur úr efri hæðunum, hvað þá frá annarri plánetu í skoðunum, verður bara að bíta í súrar athugasemdirnar með einhverjum örfáum undantekningum. Flestar athugasemdir eru viðráðanlegar fólki sem heldur úti bloggsíðu, hvað þá sjóuðum orðaskyttum.

Að tilkynna í löngu máli, að athugasemdum sem uppfylla ekki ákveðin skilyrði verði eytt er ósköp hallærislegt. Það er álíka eins og ef gestgjafi tilkynnti gestum sínum, sem sumir væru að vísu með hauspoka, að hver sá sem færi ekki að leikreglum gestgjafans verði umsvifalaust vísað á dyr. Slíkar tilkynningar eru argasti óþarfi og lýsa aðeins óöryggi gestgjafans.

Hver sem er getur sagt hvað sem er, um hvern sem er, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Netið hefur ýmsa kosti en marga ókosti sem ekki verða aðskildir.

Ég held að það sé skömminni skárra að láta "rangar" skoðanir standa sem beinast gegn bloggara á hans eigin bloggi. Ég held að það sama gildi um bloggið og önnur samskipti; að sá sem hellir úr skálum reiði sinnar með dónaskap og níði verður sjálfum sér til skammar og er ekki hátt skrifaður.

Stundum slípast bloggvinir þó einum of vel saman sem getur jafnvel leitt til þess að þeir samþykkja hvaða bull sem er til að  falla inn í hópinn. Þannig eru samskipti á blogginu ekkert svo ólík öðrum samskiptum. Bloggvinir styðja hvern annan þegar best lætur en geta líka lagt annað fólk í einelti þegar verst lætur.

Nafnleysi eru ekki alslæm, ekki frekar en andlitsmynd sé ávísun á gæði og gjörvileika. Það getur ku klux klanmeira að segja verið hressandi að fá málefnalegan "sannleika" upp á borðið, þótt hann sé nafnlaus. Þannig hlýtur það að vera innihaldið sem skiptir mestu máli en ekki hvort skoðun sé með kennitölu.

Alcoholic Anonymus er nafnlaus samtök, sömuleiðis Ku Klux Klan. Nöfn eru ekki bara til góðs og nafnleysi ekki bara til ills. Adolf kom t.d. fram undir fullu nafni en hann var með eftirnafnið Hitler.

Hin margfræga kona úr vesturbænum hafði ýmislegt gott til málanna að leggja.

Ég vann einu sinni með manni sem sagðir sínar skoðanir alltaf umbúðalaust í dyragættinni á kaffistofunni en passaði sig að skella hurðinni og hlaupa í burtu þegar hann hafði lokið máli sínu.


SAKLAUS FYRIRSPURN

Fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um aðgreiningu kynjanna í ráðherraembættum.

    1.      Hvernig hefur sú hefð mótast að ráðherrar í opinberum erindagjörðum klæði sig mismunandi. Karlráðherrar í svarta jakka en kvenráðherrar í bleikt og þeir auðkenndir með varalit, kvenúrum og karlúrum?


    2.      Telur ráðherra koma til greina að þeirri hefð verði breytt á þann veg að ráðherrar verði ekki aðgreindir eftir kyni með kven- og karlúrum og að ráðherra verði framvegis klæddir í hvítt eða aðra kynhlutlausari liti?

utanríkisbóndi


mbl.is Utanríkisráðherra sækir fund EFTA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

REYNSLUSAGA AF PLÖNTULÍFI

heiliEftir að ég fór að selja og borða Plöntulif hefur líf mitt tekið algjörum stakkaskiptum. Heilinn minn er miklu massaðri en áður. Ég er farinn að fara á leiksýningar í Þjóðleikhúsinu og á Sinfóníutónleika en áður en ég fór að selja og borða Plöntulíf horfði ég bara á sjónvarpið, á ómerkilega þætti sem reyndu ekkert á heilasellurnar. Ég kveikti í sjónvarpinu mínu. Ég kveikti líka í lágmenningarlegum bókum og öllum húsgögnunum sem ég keypti í IKEA.

Þeir sem hafa áhuga að gerast söluaðilar Plöntulifs og hefja nýjan lífstíl eru beðnir að senda mér hugskeyti en ég mun svara þeim um leið og þau berast.


AF EVRÓVISION, SÍMAKOSNINGU OG MÚG

Besta lagið sigrar alltaf í símakosningu!

"Lagið" er lag, söngur, texti, flutningur og eitthvað sem áhorfendur skynja. Einhver galdur á sér stað. En það er þrautin þyngri að halda neistanum á milli áhorfenda og flytjenda á lífi í útlöndum og tryggja að áhorfendaskarinn í Evrópu finni fyrir honum eins og heimamenn. Dómnefnd er ekkert hæfari í slíkt en venjulegt fólk sem hringir og velur sitt uppáhaldslag.

En að sjálfsögðu er það bara smekkur hvers og eins hvaða lag er best. Menntuð og viti borinn Dómnefnd sem fengi það hlutverk að velja "besta lagið" veldi einmitt það lag sem hún teldi best. Varla færi hún að velja það lag sem hún teldi að öðrum þætti best. Ef dómnefndin er öll þjóðin velur hún að sjálfssögðu besta lagið á sama hátt. Það er bara svo einfalt.

En múgurinn er bara ekki eins vitlaus og af er látið.

Sumir vilja afnema símakosningu í Evróvisíon vegna barna og annarra tónlistaróvita en það hefur borið á vantrú sumra á að blessaður múgurinn hafi réttan tónlistarsmekk. Aðeins hefur borið á gagnrýni á Magna og Birgittu en hvorugt þeirra finnst mér vera hátt skrifað hjá tónlistargáfufólkinu.

En það mætti alveg eins afnema lýðræðið og koma á fáræði þeirra sem vita betur og hafa tekið pungapróf í stjórnmálum.

múgur og margmenniHvað hefur venjulegt fólk vit á pólitík og tónlist? Af hverju ætti að leyfa fólki að kjósa sem hvorki hefur lært stjórnmálafræði né farið sjálft í framboð eða farið í tónlistarskóla. Er ekki hætta á röngu vali og röngu svari? 

Það væri hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur um ólíklegustu mál, en þó fengjum við nánast alltaf skynsömustu niðurstöðuna. En það er frábærlega vel útskýrt í bókinni."The wisdom of crwds"

Múgurinn er yfirleitt skynsamari en einstakir sérfræðingar. Þótt sérfræðingarnir séu menntaðri og hafi meiri þekkingu á málefninu en múgurinn gera sérfræðingar mistök sem hafa meiri áhrif á útkomuna en þegar múgurinn kýs. Mistök og þekkingarleysi múgsins dreifist nokkuð jafnt fyrir ofan og neðan rétta svarið ef þannig má að orði komast.

Múgurinn velur því alltaf besta lagið og flottustu flytjendurna, þess vegna valdi hann Magna og Birgittu.


HIÐ FULLKOMNA JAFNRÉTTI ER SKOLLIÐ Á!

Mikið hefur verið rætt um bleika litinn að undaförnu.

Sagt er að bleiki liturinn stuðli hugsanlega að minni hvatningu stúlkna, að þær séu settar í einhvers konur úrelt dúlluhorn og láti lítið fara fyrir sér.  Því hefur verið haldið fram að málið snúist ekki um bleika litin í sjálfu sér heldur um kynbundna framkomu fullorðins fólks en hefðbundin föt og litir eiga víst að aðgreina kynin, stúlkum í óhag. En það sem mér finnst ekki ganga upp í þeim málflutningi er að 50% fleiri stúlkur kláruðu stúdentspróf nú í vor en strákar, sem er skýr vísbending um að stúlkur séu svo sannarlega hvattar til dáða frá og með leikskóla, upp allt skólakerfið, hvort sem þær eru í bleikum ungbarnagöllum, pilsum og jafnvel í brjóstahöldum.

Ef 50% fleiri strákar hefðu klárað stúdentspróf en stúlkur hefðu viðbrögðin ekki látið á sér standa. En ég hef hvorki séð umræður á þingi eða annarsstaðar um það "stóra" mál, en það má vel vera að það hafi bara farið framhjá mér. Það er nú ekki hátt rísið á mörgum strákum sem hafa flosnað úr skóla!

Á einu blogginu sögðu konur hvor annarri frá hversu lítt stúlkum væri hampað en strákar hvattir til dáða. Þetta er nú bara flökkusaga sem á sér ekki neina stoð í veruleikanum enda eru stúlkur svo sannarlega hvattar til dáða. Þannig VAR það að vísu ekki og þess vegna eru karlar eldri en fimmtugt svo valdamiklir sem raun ber vitni. Þeirra uppeldi og menntun miðaðast við að gera þá að erfingjum þessa lands. Þess vegna eru þeir oftar í umræðuþáttum en það mun alls ekki letja konur að láta til sín taka enda eru eldri karlar ekki fyrirmyndir ungra stúlkna. Ungar konur eru margfalt virkari en áður fyrr. Þær munu erfa landið til jafns við karla, það er augljóst og ekki er nein þörf á sérstökum hjálpartækjabanka fyrir konur vegna þess að munu svo sannarlega spjara sig á eigin verðleikum, án nokkurra göngugrinda.

Það tekur þjóðir nokkra áratugi að koma sér úr hlekkjum hugarfarsins og okkur hefur tekist ágætlega að skipta um ham. En því miður er eins og jafnréttisiðnaðurinn neiti að horfast í augu við þann stórkostulega árangur sem þegar hefur náðst, þar sem augljóst er að konur eru um það bil að verða jafnvirkar og áhrifamiklar og karlar. Allt sæmilega vel gefið fólk er fyrir löngu búið að meðtaka boðskapinn; að sem flestir þegnar landsins eigi að vera virkir eins og hugur þeirra og hæfileikar stefna að.

Hin nýja jafnréttisstofa Kristínar Ástgeirsdóttur er óþörf og miðast við veruleika sem er alls ekki fyrir hendi. Sjálf sagði hún á að "ekkert gengi" í jafnréttismálum! Eftir rétt rúm 20 ár þegar erfingjarnir fara á elliheimili munu ávextir hins fullkoman jafnréttis ná fullum þroska án þess þó að það merki endilega að sama hlutfall karla og kvenna verði í hverri einustu starfsgrein.

Ungar konur hafa fullt sjálfstraust til að takast á við hvað sem er og engin fyrirstaða er í fyrirtækjum vegna þess að þau hafa ekki efni á því að ráða ekki hæfasta starfsmanninn hverju sinni. Það þarf enga jafnréttisstofu til að segja þeim það. Hefðbundin viðhorf eldri kynslóðarinnar munu hverfa en ungt fólk af báðum kynjum, farmtíðarleiðtogar þessa lands, munu einfaldlega ráða hæfasta fólkið af báðum kynjum.

Jafnréttið er komið sem betur fer, en það verður að leyfa körlum af erfingjakynslóðinni að klára sín ævistörf og pakka saman sínu hafurtaski í rólegheitum áður en þeir setjast í helgan stein án þess að gerður sé aðsúgur að þeim eða gert lítið úr þeim. Ef farið er í handaflsaðgerðir til að skipta konum og körlum jafnt á milli valdastarfa væri aðeins verið að búa til misrétti enda væri þá verið að grípa inn í farveg sem er að myndast af sjálfu sér.

Tökum dæmi: Í grein þar sem karlar eru í meirihluta er eðlilegt að yfirstjórn endurspegli hlutföll kynjanna en það er ekki alltaf einfalt. Karlar sem voru aldir upp sem erfingjar þessa lands hafa æft sig betur sem stjórnendur, haft sig meira í frami en konur og látið eins og höfuð ættarinnar. Sjálfstraustið hefur því verið gott en sjálfstraust ungra kvenna er ekki minna en ungra karla.

Já, þegar 50% fleiri konur taka stúdentspróf er framtíð kvennanna björt og alveg ljóst að þeim hefur ekki orðið meint af því að vera stúlkur í ljósbeiku eða kjólum. Eftir svona 20 ár verða konur og karlar álíka mörg á þingi og þær munu hafa sig jafn mikið í frami og karlar og munu ekki tvítóna við að mæta í þátt eins og Silfur Egils enda verða álitsgjafarnir og erfingjarnir sestir í helgan stein eða komnir undir græna torfu. Jafnréttið er komið þótt þeir erfingjarnir séu ekki allir dauðir.

það er hægt að skipta um kúakyn en ekki körlum sem voru aldir upp sem prinsar. Tími kvenna er kominn þótt tími forystukarlanna sé ekki alveg liðin.


HAGKAUP GERIR MANNLÍFIÐ SKEMMTILEGRA

Þessi ákvörðun Hagkaups er svo sannarlega ekki út í loftið. Sjálfur vann ég í verslun í mörg ár og tók eftir því að mörg hjón fóru saman að versla þar sem karlinn réð engu um hvað fór ofan í körfuna, þetta átti oft við um hjón af eldri kynslóðinni. Karlinn gekk með körfuna og konan setti ofan í hana. Oftast var hann algerlega passívur. Það kom ótrúlega oft fyrir þegar maður spurði eldri karla hvort maður gæti aðstoðað, að þeir segðust vera að leita að konunni sinni.

Þess vegna lagði ég til að komið yrði nokkrum stólum fyrir þá svo þeir gætu slappað af og hvílt lúnar fætur. Þeir drukku kaffi og fyrir jólin voru piparkökur á boðstólnum. Þetta gafst mjög vel enda voru þeir miklu afslappaðri og oft átti ég gott spjall við þá meðan konan gat gefið sér góðan tíma að versla og hjónin fóru glöð út. Annars hef ég aldri skilið af hverju þau fóru yfirleitt saman að "versla" fyrst þeir höfðu svo litlu hlutverki að gegna en það kom mér bara ekkert við. Mannlífið er bara svo fjölbreytt og skemmtilegt.

En þetta er mjög sniðugt af Hagkaupum. Þeir eiga hrós skilið fyrir framtakið.


mbl.is Pabbar í pössun í Hagkaupum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÞINGBÆNDUR OG UMHVERFISBÓNDI

Ég legg til að ráðherrar verði að þingbændum en áfram yrði talað um þingmenn og þingkonur. Umhverfisbóndi hljómar best að mínu mati. En svona yrði listinn.

Björn Bjarnason, dómsmálabóndi
Einar K. Guðfinnsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsbóndi
Geir H. Haarde, forsætisbóndi
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisbóndi
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisbóndi
Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálabóndi
Kristján L. Möller, samgöngubóndi
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, menntamálabóndi
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisbóndi
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarbóndi

 


mbl.is Vill nýtt starfsheiti fyrir ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HVAÐ ER MYRKUR?

myrkurEinhverju sinni fyrir langa löngu var reynt að frelsa mig frá myrkrinu. Síðan þá hefur myrkrið verið mér hugleikið.

Myrkur er í sjálfu sér bara skortur á ljósi, það er svo sem allt og sumt. En þegar trúað fólk talar um myrkrið í heiminum á það við allt það vonda og illa sem ekki er komið frá Guði. Þannig er Guð ljósið en Satan myrkrið.

Ef ljós heimsins er Guð, er myrkur heimsins aðeins skortur á ljósi, en skortur á ljósi er hvorki efni né orka.

Það þarf orku til að lýsa upp götur og hús. Þetta hafa þeir hjá Orkubeitunni vitað lengi. Þeir senda okkur meira að segja reikning fyrir ljósin sem við notum til að glugga í jólabækurnar. Engum hefur ennþá dottið í hug að senda reikning fyrir myrkrinu enda er ekkert efni til að rukka fyrir.

En af hverju að berjast gegn því sem ekki er til og hefur aldrei verið til? Af hverju er farið í göngu gegn engu? Af hverju telur fólk að það sem ekki er til hafi svo vond áhrif á heiminn? Vissulega má líkja ýmsu böli við myrkur en væri ekki betra að berjast beint gegn bölinu?

ljósLjósið getur einnig staðið fyrir þekkingu og viðsýni. Þannig borgum við ekki bara Orkuveitunni fyrir hitan og ljósið heldur kostar stórfé og komu börnum okkar úr myrkri fáfræðinnar.

Ljósin á sjúkrahúsunum eru í ýmsum myndum en læknar og hjúkrunarfólk notast við bestu þekkingu og kunnáttu til að halda í okkur líftórunni svo við getum notið ljóstýrunnar ögn lengur og séð börnin okkar verða að menntuðu og víðsýnu fólki. Rosaleg er þetta væmið!

En ljós og myrkur eru vond orð til að lýsa heiminum. Þekking er ekki alltaf ljósið og fáfræði þarf ekki að vera myrkrið. Er kjarnorkusprengja sem springur ljós þekkingar auk hins bókstaflega ljóss og þeirrar orku sem hún gefur frá sér?

Brauð gefur hitaeiningar sem við þörfnumst til að lifa. Ef brauð er ljós, er myrkrið brauðskortur. Ef vatn er ljós, er skortur á vatni myrkur. Ef Guð er ljós, er Satan myrkrið og þess vegna er hann ekki til frekar en ekkert brauð eða ekkert vatn. Hann getur aðeins verið skortur á Guði en hefur enga sjálfstæða tilvist eins og skortur vatni og brauði sem er mikið böl.

Ljós og myrkur eru hvítar og svartar andstæður en það eykur ekki skilning okkar að flokka litróf mannlífsins í myrkur og ljós.

Ljósið í myrkrinu er þó að myrkrið er hvorki efni né orka. Það er hvorki hægt að virkja það né selja, en í heimi þar sem allt er til sölu, meira að segja hugmyndir, hefur engum kaupsýslumanni dottið í hug að sýsla með myrkrið nema til að hræða okkur í ýmsum hrollvekjum.

Faðir minn sagði að draugar hefðu  horfið með rafmagnsljósinu en eins og flestir vita eru draugar ekki til en það sem ekki er til þrífst mjög vel í myrkrinu.


HVAR ER DRENGJAVERÖLDIN?

Feminist1Karlar eru hinu nýju gyðingar sem stjórna samfélaginu, eru bæði betur launaðir og hygla hverjir öðrum.

Í viðtali við hina nýju jafnréttisstýru sagði hún að "ekkert gengi" að koma á jafnrétti kynjanna. Þetta sagði hún þó þrátt fyrir að mesta bylting mannkynssögunnar hefur átt sér stað. Mér er til efs að meiri breytingar án stríðs, náttúruhamfara, blóðsúthellinga eða sjúkdóma hafi orðið frá því fólk fór að ganga upprétt, sem breyttu jafn miklu á jafn stuttum tíma. Þessar breytingar hafa orðið án refsinga og fangelsa og útrýmingarbúða enda hafa vestræn samfélög svo sannarlega gengið til góðs að flestu leiti. Frelsi til orðs og æðis hefur aldrei verið meira. En þó gengur "ekkert" í jafnréttismálum" eða bara "alltof hægt". Og það versta er að femínistar vilja lengri fangelsisdóma og vilja fangelsisvæða lesti karlanna en sjúkdómsvæða bágborna stöðu kvennanna. þess vegna þarf fleiri fangelsi fyrir karlanna og lengri dóma og hjálp fyrir konurnar.

stereotypes-thumbFyrir nokkrum áratugum fóru nánast engar konur í háskóla, nú eru þær í meirihluta en þrátt fyrir allt sem áunnist hefur er það ekki nóg. Ekkert er nóg.  Af hverju ekki? Ef búin væri til kúrfa yfir árangurinn sem hefur náðst væri hún stöðug upp á við. 

Allar tölur sem segja að ástandið sé nokkuð gott þegar kemur að jafnrétti kynjanna er hafnað en hinum hampað sem draga nógu dökka mynda af ástandinu, konum í óhag. Þegar strákar detta úr skóla er það ekki talið með eða þegar þeir drekka sig í hel.

Áður en lög um reykingabann á veitingahúsum tók gildi hafði um helmingur reykingafólks tekið upp á því að hætta. Áróður og ábendingar duga vel í frjálsum samfélögum þar sem flestir, konur og karlar, tekst bara flestum ágætlega að hafa vit fyrir sjálfum sér og standa með sjálfu sér.

22249046Þegar fullyrt er að samfélagið sé karlasamfélag eða drengjasamfélag er horft til launamunar og hversu margir karlar eru á þingi, hversu margir eru forstjórar og svo framvegis. En fyrir nokkrum aratugum var ekki ein einasta kona forstjóri, kannski ein og ein á þingi en meginþorri kvenna voru heimavinnandi húsmæður.

Fyrir ekki svo löngu síðan urðu engar breytingar á meðan karlar og konur hokruðu allt sitt líf, allt var í sama gamla farinu. Amma mín sem fæddist á Hornströndum lifði í raun í þúsund ár. Það má segja að þjóðin hafi verið í hlekkjum, já í hlekkjum kyrrstöðu.

Kynjafræði og aðrir greinar eru ágætar til að víkka sjóndeildarhring okkar en það má ekki beita slíkum "fræðum" til að minnka frelsi fólks til að ráða hæfasta einstaklinginn hverju sinnu. Ráðningastjóri hvers fyrirtækis ætti sjálfur að fá að ráða þann sem hann telur hæfastan enda hefur fyrirtækið ekki efni á öðru. Vel má vera að karlráðningastjóri hafi meiri trú á einstaka körlum sem hann kannast við úr skóla en sú "regla" mun smátt og smátt gilda líka um konur eftir því sem þeim  fjölgar í stjórnum fyrirtækja. En þrátt fyrir að þeir hlutir gangi fyrir sig á ljóshraða ef maður horfir hundrað ár aftur í tímann gengur "ekkert".

Einnig má benda á hversu "grunsamlega" margir yfirlýstir femínistar fá blogg sín auglýst sérstaklega. kannski þekkjast þær konur sem hafa verið saman í kynjafræði til hvor annarrar og finnst að sjálfsögðu skynsamlegra það sem kemur frá skoðanasystrum. Það er ekkert óeðlilegt.

Hins vegar var ég alltaf hrifinn af rauðsokkum en oft þarf ekki nema smá ábendingu til að venjulegt fólk sem hefur skilning, dómgreind og hugmyndaflug til að innbyrða byltingarkenndar ábendingar sem ekki eru bara teknar til greina heldur lifa hugmyndir rauðsokka og annarra "furðufugla" ágætu lífi og eru hluti af hugmyndaflórunni.

Hvítir miðaldar karlar eða bara karlar yfirleitt hafa engin sérstök "karllæg viðhorf" enda eru slíkir frasar aðeins til þess fallnir að gera okkur ómarktæka. Í mörg ár hefur verið alið á því að hvítir karlar séu bjórþambandi, valdasjúkir vitleysingar sem þurfi að stjórna með valdboði og hæfilegu femínísku rafstuði enda eru þeir bara ferkantaðir klunnar eins og Simpson og allir hinir skemmtilegu vitleysingarnir í sjónvarpinu sem eru með derhúfuna öfuga.

Við erum fyrir löngu búnir að ná, skilja og tileinka okkur hugmyndina um jöfn tækifæri kynjanna en mér hefur stundum fundist að þær konur sem blogga um femínisma og eru nýskriðnar úr kynjafræði séu að vísindavæða skoðanir sem eru í eðli sínu pólitískar og aldrei verður sátt um. Í krafti kynjafræðinnar er verið að koma á öflugu en óþörfu eftirliti sem skapar fleiri og fleiri störf eins og gerðist í Sovétríkjunum en þar þurfti gríðarlegt eftirlit með ferköntuðu fólki sem hagaði sér ekki eftir hringlóttum sannindum. Sumir kölluðu þetta eftirlit KGB.

Drengjaveröldin er ekki bara á "toppnum." Kannski ættu femínistar að víkka sjóndeildarhringinn og taka rútu á litla-Hraun til að kynnast drengjaveröldinni þar. Jafnvel að spila fótbolta við fanganna, Talið bara við Bubba Morteins, hann er einn  af þessum ofvirku drengjum. Slík ofvirkni getur leitt til mikilla sigra og algers skipsbrots.

Guðný Halldórsdóttir sem bísnaðist yfir drengjaveröldinni - sjá þetta BLOGG Sverris - ætti að vera með í rútunni.


PAUL ER EKKI SÁ FYRSTI

það var Ingólfur Arnarson, Úlfljótur og fleiri.

Skömmu eftir árið 900 var farið að huga að þeim möguleika að stofna eitt  allsherjarþing - Alþingi - á Íslandi. Nokkru fyrir árið 930 komu höfðingjar sér saman um að senda mann, Úlfljót að nafni, til Noregs. Erindi hans var að kynna sér lög og venjur sem hafa mætti að fyrirmynd í hinu nýja þjóðfélagi. Hann sneri aftur til Íslands og við hann eru kennd fyrstu lögin sem sögð voru upp á Alþingi - Úlfljótslög.  Fóstbróðir Úlfljóts, Grímur geitskör, fór um Ísland til að afla fylgis við stofnun Alþingis sem og að finna hentugan þingstað. Niðurstaðan varð sú að þingið yrði í Bláskógum og sumarið 930 komu menn saman, þar sem nú heita Þingvellir, til að taka þátt í fyrsta Alþingi Íslendinga sem markar upphaf þjóðríkis á Íslandi.  Nokkrar  ástæður eru taldar líklegastar fyrir vali þingstaðarins á Þingvöllum.  Í landnámi Ingólfs Arnarsonar hafði verið stofnað þing á Kjalarnesi. Ættingjar hans voru valdamiklir og talið er að áhrifa þeirra hafi gætt við staðarval Alþingis. Á þjóðveldisöld lágu Þingvellir vel við helstu leiðum og þéttbýlustu svæðum á Íslandi og því auðvelt fyrir flesta að sækja þingið. Grein


mbl.is Fyrsti innflytjandinn á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sko

Höfundur

Benedikt Halldórsson
Benedikt Halldórsson

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • engin hamfarahlýnun
  • engin hamfarahlýnun
  • engin hamfarahlýnun

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband